Fótbolti

Eiður Smári með mark og stoðsendingu í sigri á strákunum hans Rúnars

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. Vísir/Getty
Eiður Smári Guðjohnsen hafði greinilega gott af því að fá frí frá landsliðinu því hann átti flottan leik í kvöld þegar lið hans Molde vann 4-2 sigur á Lilleström í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Eiður Smári lagði upp fyrsta markið, átti þátt í öðru markinu og skoraði síðan fjórða markið úr víti þar sem hann átti einnig þátt í undirbúningnum.

Þetta er fyrsta markið sem Eiður Smári skorar í norsku úrvalsdeildinni og einnig fyrsta stoðsendingin sem hann hefur. Eiður Smári spilaði allan leikinn.

Molde hefur sjö stig eftir þrjá leiki og sigurinn í kvöld kemur liðinu á toppinn. Molde var í fjórða sæti fyrir umferðina og liðin fyrir ofan eiga öll leiki inni og gætu þar með komist aftur upp fyrir Molde-liðið.

Lærisveinar Rúnar Kristinssonar í Lilleström hafa enn ekki unnið leik og eru með 2 stig í neðri hluta deildarinnar.  Árni Vilhjálmsson spilaði líka síðustu fimmtán mínúturnar fyrir Lilleström. 

Eiður Smári lagði upp fyrsta markið fyrir Mattias Moström á 5. mínútu leiksins og hann kom líka að undirbúningnum þegar Sander Svendsen kom Molde í 2-1 á 31. mínútu.

Harmeet Singh kom Molde síðan í 3-1 á lokamínútu fyrri hálfleiksins en Erling Knudtzon minnkaði muninn á 56. mínútu.

Eiður Smári spilaði Fredrik Gulbrandsen í gegn á 65. mínútu og hann fiskaði vítaspyrnu sem Eiður Smári skoraði af öryggi úr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×