Innlent

Segir ráðningu skólameistara anga af spillingu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ráða átti í starf skólameistarans frá og með 1. apríl.
Ráða átti í starf skólameistarans frá og með 1. apríl. Fréttablaðið/Pjetur
Ragnar Þór Pétursson, fulltrúi menntamálaráðherra í skólanefnd Borgarholtsskóla, hefur sagt sig úr skólanefndinni vegna ráðningar Ársæls Guðmundssonar í stöðu skólameistara Borgarholtsskóla. Hann segir að skólanefndin hafi verið sammála um að annar umsækjandi hafi verið hæfari en Ársæll. Telur Ragnar nánast útilokað að Ársæll hafi verið valinn á faglegum forsendum og að máli angi af spillingu.

Ragnar segir að nefndin hafi fengið það verkefni að meta hæfi umsækjenda um stöðu skólameistara sem losnaði þegar Bryndís Sigurjónsdóttir lét af störfum fyrir aldurs sakir. Þegar vinna skólanefndar hófst við að meta umsóknir um stöðu skólameistara hafi nefndini borist tilmæli um að hún ætti ekki að taka viðtöl við umsækjendurna.

„Þegar að því kom bárust nefndinni frekar nákvæm fyrirmæli þar sem meðal annars var mælst til þess að nefndin léti það vera að skoða umsækjendur of vel. Samt sem áður átti nefndin að leggja mat á hæfi umsækjenda. Það fór svo að nefndin hafði ekkert í höndunum við matið annað en innsendar umsóknir,“ segir Ragnar Þór í pistli sem hann birti á Stundinni.



„Ég held að málið angi allt af spillingu“

Ragnar segir að hver og einn nefndarmaður hafi lagt sjálfstætt mat á umsóknirnar. Þeir hafi svo allir komist að sömu niðurstöðu um að einn umsækjandi væri hæfastur en enginn þeirra sem sat í skólanefndinni hafi talið Ársæl vera hæfasta umsækjandann. 

Tilkynnt var í lok maí að Ársæll Guðmundsson hafði verið ráðinn skólameistari. Ragnar segir að útilokað sé að Ársæll hafi verið ráðinn á faglegum forsendum og að altalað hafi verið að staðan hafi verið eyrnamerkt Ársæli.

„Þvert á móti voru fleiri en einn umsækjandi að mínu mati augljóslega frambærilegri. Ég held að Ársæll Guðmundsson hafi verið ráðinn af pólitískum ástæðum. Ég treysti ekki því ferli sem fram fór,“ segir Ragnar Þór. „Ég held að málið allt angi af spillingu.“

Ráðningin dróst á langinn en upphaflega var gert ráð fyrir að Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, myndi skipa í stöðuna frá 1. apríl. Vegna umsóknar Ársæls Guðmundssonar, sem starfað hefur undanfarið sem verkefnastjóri í mennta- og menningarmálaráðuneytinu og vegna tengsla hans við ráðuneytið var ákveðið að innanríkisráðherra skipaði í stöðuna. Ólöf Nordal skipaði Ársæl Guðmundsson í stöðuna frá 1. júlí næstkomandi.

Aðstoðarskólameistari sagði ráðningarferlið klúðurslegt

Samkvæmt heimildum Vísis var Ingi Bogi Bogason, aðstoðarskólameistari skólans, metinn hæfastur umsækjenda af skólanefndinni. 

Skömmu eftir að tilkynnt var um ráðningu Ársæls Guðmundssonar í stöðu skólameistara tjáði Ingi Bogi sig á Facebook-síðu sinni þar sem hann sagðist vona að „íslensk stjórnsýsla dragi lærdóm af klúðurslegri afgreiðslu þessa máls.“

Ingi Bogi vildi ekki tjá sig um málið þegar Vísir náði tali af honum.


Tengdar fréttir

Kurr í Borgarholtsskóla

Dregist hefur að ráða nýjan skólameistara. Umsóknarfrestur rann út fyrir þremur mánuðum. Kennurum skólans finnst þeir lítilsvirtir af stjórnvöldum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×