Erlent

Brottflutningur frá Aleppo stöðvaður

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Börn að leik innan um rústirnar í Aleppo í borgarhluta sem stjórnarherinn er með á sínu valdi.
Börn að leik innan um rústirnar í Aleppo í borgarhluta sem stjórnarherinn er með á sínu valdi. Vísir/AFP
„Enginn veit hve margir eru enn eftir í austurhluta borgarinnar og brottflutningurinn gæti staðið yfir dögum saman,“ segir Marianne Gasser, yfirmaður Alþjóðanefndar Rauða krossins í Sýrlandi.

Sýrlandsstjórn stöðvaði í gærmorgun allan brottflutning fólks, en á fimmtudaginn hafði tekist að koma um 9.000 manns frá borginni.Fólkið var flutt í bílalestum, margir í sjúkrabifreiðum en aðrir með strætisvögnum, yfir á svæði uppreisnarmanna vestan megin borgarinnar.

Nærri tvö hundruð manns þurfti að flytja á sjúkrahús, ýmist á svæðum uppreisnarmanna í Aleppo-héraði, vestan borgarinnar, eða Idlib-héraði þar fyrir norðan. Mikið álag er fyrir á þessum sjúkrahúsum, en sumir voru fluttir á sjúkrahús í Tyrklandi.

Yfirlýsingar voru misvísandi í gær um það hvort brottflutningi yrði haldið áfram eða ekki. Rússneski herinn sagði að brottflutningnum væri alveg lokið en fulltrúi Sýrlenska hersins segir að hann hafi aðeins verið stöðvaður um óákveðinn tíma.

Sameinuðu þjóðirnar segja að 50 þúsund manns hið minnsta séu ennþá eftir í borgarhlutanum, en um tíu þúsund þeirra þurfi að flytja yfir á svæði uppreisnarmanna í Idlib. Hinir fari væntanlega yfir í aðra borgarhluta, sem stjórnarherinn hefur á sínu valdi.

Uppreisnarmenn gegn stjórn Bashars al Assad forseta hafa haft austurhluta Aleppo-borgar á sínu valdi undanfarin fjögur ár. Grimmileg átök, ekki þó síst sprengjuárásir stjórnarhersins og stuðningsmanna hans á borgarhlutana, hafa kostað þúsundir manna þar lífið.

Frá 21. nóvember hefur stjórnarhernum tekist að hrekja upp­reisnar­menn að mestu úr borginni, þótt enn haldi þeir tveimur hverfum syðst í austurhlutanum.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×