Innlent

Brúnum eggjum kastað í Matís fyrir misskilning

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Steinar B. Aðalbjörnsson, upplýsingafulltrúi Matís, gerir ráð fyrir að gremja eggjakastarans hafi beinst að Matvælastofnun.
Steinar B. Aðalbjörnsson, upplýsingafulltrúi Matís, gerir ráð fyrir að gremja eggjakastarans hafi beinst að Matvælastofnun. Mynd/Steinar B. Aðalbjörnsson

Eggjaklessur blöstu við starfsmanni Matís í morgun þegar hann var að taka aðalinnganginn úr lás. Steinar B. Aðalbjörnsson, upplýsingafulltrúi Matís, gerir ráð fyrir að gremja eggjakastarans hafi beinst að Matvælastofnun og segir það algengt að fólk rugli saman Matís og MAST. 



„Það var manneskja sem mætti rétt fyrir átta sem opnar hurðina, aðalinnganginn, tekur hann úr lás og þá blasti þetta við þarna að mestu leyti á stéttinni fyrir framan en það slettist aðeins upp á glerhurðina. Þetta var ekki mikið,“ segir Steinar í samtali við Vísi.



Voru þetta brúnegg?



„Þau voru allavega brún á litinn, ég veit ekki hvaðan þau komu en þau voru brún á litinn.“



Matís hefur undanfarið reynt að skilja á milli Matís, Matvís og Matvælastofnunnar sem oft er skammstöfuð MAST.



„Við höfum náttúrulega fundið fyrir þessu í gegnum tíðina að fólk sé að rugla okkur ansi mikið saman. Við höfum fengið skammir frá fólki sem hefur til dæmis átt erindi til matvælastofnunar útaf einhverjum málum, það hefur ekki verið sátt. Þá hefur fólk kannski verið að skamma okkur á samfélagsmiðlum eða eitthvað slíkt.“



Matís er opinbert hlutafélag sem sinnir fjölbreyttu rannsókna- þjónustu- og nýsköpunarstarfi í matvæla- og líftækniiðnaði. Matvælastofnun (MAST) er ríkisstofnun sem sinnir meðal annars stjórnsýslu og eftirliti og samræmir starfsemi heilbrigðiseftirlitsins á landsvísu. Matvís eru svo félagasamtök iðnaðarmanna í matvæla- og veitingageiranum.



„Þó við snúumst kannski öll í kringum matvælin að einhverju leyti þá erum við þrjár ólíkar einingar. Það sem flækir málin svo er að við sinnum ákveðinni þjónustu fyrir Matvælastofnun. Við rannsökum sýni sem þau koma með til okkar og þá eru þau viðskiptavinir eins og hver annar,“ segir Steinar.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×