Viðskipti innlent

Brúnegg hafa hagnast um 113 milljónir á þremur árum

Birgir Olgeirsson og Sæunn Gísladóttir skrifa
Brúnegg hagnaðist um 42 milljónir árið 2015. Á myndinni er Kristinn Gylfi Jónsson, framkvæmdastjóri og annar af eigendum Brúneggja.
Brúnegg hagnaðist um 42 milljónir árið 2015. Á myndinni er Kristinn Gylfi Jónsson, framkvæmdastjóri og annar af eigendum Brúneggja. Vísir/GVA

Árið 2015 nam hagnaður eggjaframleiðandans Brúneggja 41,8 milljónum króna. Hagnaðurinn jókst milli ára en hann nam 29,6 milljónum króna árið áður. Árið 2013 nam hagnaðurinn 41,6 milljónum króna. Á síðustu þremur árum hefur félagið því hagnast um 113 milljónir króna.



Eignir félagsins í árslok 2015 námu 396 milljónum króna, samanborið við 428 milljónir króna árið áður. Eigið fé nam 122,7 milljónum króna og lækkaði um rúmar fjörutíu milljónir milli ára. Skuldir námu 273 milljónum króna í árslok 2015.



Frá 2010 hafa Brúnegg hagnast um 219 milljónir króna.



Innlendir hluthafar Brúneggs voru í árslok 2015 tveir, Geysir-Fjárfestingarfélag og Bali en félögin tvö áttu hvort um sig fimmtíu prósenta hlut.



Það eru bræðurnir Kristinn Gylfi og Björn Jónssynir sem eiga þessi fyrirtæki, Kristinn á Geysi-Fjárfestingafélag ehf. en Björn á Bala ehf. Þeir hafa því hagnast um yfir hundrað milljónir hvor frá 2010.



Í umfjöllun Kastljóss í gærkvöldi kom fram að fyrirtækið Brúnegg blekkti neytendur á sama tíma og fyrirtækið stóð frammi fyrir vörslusviptingaraðgerð Matvælastofnunar á hænum í eigum fyrirtækisins. Á umbúðum eggja sem framleidd eru af fyrirtækinu er tekið fram að velferð dýranna séu í hávegum höfð, þrátt fyrir að könnun Matvælastofnunar hafi leitt annað í ljós. Þótti ljóst að hænur í eigu Brúneggja hefðu búið við afar slæman aðbúnað.



Kristinn Gylfi Jónsson, framkvæmdastjóri Brúneggja, sagði við Kastljós í gær að að slíkt gæti komið fyrir að fuglar fyrirtækisins byggju við bágar aðstæður en brugðist hefði verið við því.



Brúnegg hafa merkt framleiðslu sína sem vistvæna án þess að uppfylla slíkar kröfur. Þegar  Kristinn var spurður fyrir hvað vistvæna merkið stæði sagði hann það standa fyrir góða vist hænsnanna, fyrir hænur sem fengju meira pláss og þyrftu ekki að búa við þröngan kost. Sagðist hann standa við það að hlutirnir væru almennt í lagi þó til væru frávik sem brugðist væri við. 


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×