Enski boltinn

Þjálfarinn minn misnotaði mig

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Stewart átti sín bestu ár á ferlinum í búningi Spurs þar sem hann lék meðal annars með Gary Lineker og Paul Gascoigne.
Stewart átti sín bestu ár á ferlinum í búningi Spurs þar sem hann lék meðal annars með Gary Lineker og Paul Gascoigne. vísir/getty
Paul Stewart, fyrrum leikmaður Tottenham og Liverpool, steig fram í dag og upplýsti að hann hefði verið misnotaður kynferðislega af þjálfaranum sínum er hann var unglingur.

Hinn 52 ára gamli Stewart greinir frá misnotkuninni í viðtali við Mirror en hann segir þjálfarann hafa misnotað sig í fjögur ár. Frá því hann var 11 ára til 15 ára.

Stewart segist opna sig með þetta mál núna í von um að það hjálpi fleiri fórnarlömbum að stíga fram.

Þessi fyrrum framherji segir þjálfarann hafa misnotað sig daglega í fjögur ár. Hann hafi síðan hótað að drepa ættingja Stewart ef hann myndi kjafta frá.

Stewart í leik með Liverpool.vísir/getty
Misnotkunin hófst í kjölfar þess að þjálfarinn varð vinur foreldra hans og sagðist ætla að hjálpa til við að gera Stewart að stjörnu.

„Einn daginn erum við í bílnum og hann byrjar að snerta mig. Ég varð skíthræddur og vissi ekki hvað ég átti að gera. Ég reyndi að segja foreldrum mínum að bjóða honum ekki heim en ég var bara 11 ára og það var ekket hlustað á mig,“ sagði Stewart.

„Síðan byrjaði misnotkunin fljótlega. Hann sagðist ætla að drepa mömmu, pabba og bræður mína ef ég kjaftaði frá. Þegar maður er 11 ára þá trúir maður slíkum hótunum.“

Stewart segir að fleiri strákar í liðinu hafi einnig verið misnotaðir.

Stewart hóf atvinnumannaferil sinn með Blackpool árið 1981 og lék með þeim til ársins 1987. Þá lék hann eina leiktíð með Man. City áður en hann færði sig yfir til Tottenham.

Þar lék Stewart 131 leik á fjórum árum og skoraði í þeim leikjum 28 mörk. Frá 1992 til 1996 var hann hjá Liverpool en náði aðeins að spila 32 leiki fyrir félagið og skora eitt mark.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×