Erlent

Blair telur að Bretar geti stoppað Brexit

Sæunn Gísladóttir skrifar
Tony Blair, fyrrverandi ­forsætisráðherra Breta.
Tony Blair, fyrrverandi ­forsætisráðherra Breta.
Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, sagði í viðtali við New Statesman sem birtist í gær að Bretar gætu komið í veg fyrir útgöngu ríkis síns úr Evrópusambandinu. Hinn 23. júní síðastliðinn samþykktu Bretar svo kallað „Brexit“ í þjóðar­atkvæðagreiðslu, það er að ganga úr Evrópusambandinu.

„Það er hægt að koma í veg fyrir þetta ef breska þjóðin kemst að þeirri niðurstöðu, eftir að hafa séð hvað ákvörðunin felur í sér, að ávinningurinn sé ekki meiri en kostnaðurinn,“ segir Blair í viðtalinu.

Hann telur að þetta geti gerst með tvennum hætti. Annars vegar með því að Bretar fái mesta mögulegan aðgang að efnahagssvæði Evrópusambandsins og taki í staðinn við fjölda innflytjenda frá ESB og greiði hluta af fjárhags­áætlun sambandsins. Þá muni Bretar spyrja af hverju þeir séu að yfirgefa Evrópusambandið.

Hins vegar telur hann að það muni gerast ef Bretar fá ekki lengur aðgang að efnahagssvæðinu og standi þá frammi fyrir margra ára fjárhagserfiðleikum.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×