Erlent

Fjölmennustu mótmælin til þessa

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Um 1,3 milljónir mótmælenda komu saman í Seoul í dag. Mótmælin hafa farið friðsamlega fram.
Um 1,3 milljónir mótmælenda komu saman í Seoul í dag. Mótmælin hafa farið friðsamlega fram. vísir/epa
Um 1,3 milljónir mótmælenda komu saman í Seoul í Suður-Kóreu, fimmta laugardaginn í röð, og kröfðust afsagnar forseta landsins sem viðriðinn er umfangsmikið spillingarmál. Um er að ræða stærstu mótmælin þar í landi til þessa.

Park Geun-hye, forseti Suður-Kóreu,  er sökuð um að hafa látið vinkonu sinni í té ýmsar trúnaðarupplýsingar og leyft henni að taka þátt í mikilvægum ákvarðanatökum.Vinkonan er sögð hafa nýtt sér þessar upplýsingar til fjárkúgunar, en hún var handtekin fyrr í þessum mánuði.

Geun-hye hefur tvívegis beðist afsökunar í beinum sjónvarpsútsendingum, en segir ekki koma til greina að segja af sér embættinu.

Bróðurpartur landsmanna, eða 93 prósent, segjast ósáttir við forsetann, og vinnur stjórnarandstaðan nú að því að fá Geun-hye ákærða.

Mótmælin hafa farið friðsamlega fram og eru mótmælendur flestir með kerti í hönd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×