Enski boltinn

Hazard: Manchester City og Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eden Hazard.
Eden Hazard. Vísir/Getty
Eden Hazard, leikmaður Chelsea, telur að Chelsea muni berjast um enska meistaratitilinn við Manchester City og Liverpool en einu stig munar nú á þessum þremur efstu liðum ensku úrvalsdeildarinnar.

Hazard og félegar í Chelsea eru með eins stigs forskot eftir 2-1 sigur í Lundúnaslag á móti Tottenham um helgina en Chelsea-liðið hefur unnið sjö leiki í röð í deildinni.

Belginn var spurður um það eftir leikinn hvaða lið hann telji muni berjast um titilinn við Chelsea á þessari leiktíð.

„Manchester City og Liverpool. Þau eru bæði góð. Ef við viljum vera á toppnum í lokin þá þurfum við að enda ofar en þau,“ sagði Eden Hazard við enska blaðamann á blaðamannafundi eftir leikinn.

Chelsea endaði bara í tíunda sæti á síðasta tímabili en er nú á miklu skrið og hefur sem dæmi markatöluna 19-1 í sjö leikja sigurgöngu sinni.

Antonio Conte hefur komið með nýja og ferska vinda inn í liðið en Eden Hazard viðurkennir líka að það hjálpi liðinu að þurfa ekki að spila Evrópuleiki í vetur.

„Við höfum eina viku til að undirbúa okkur fyrir leikina og þegar kemur að leikjunum okkar þá vitum við nákvæmlega hvað við þurfum að gera,“ sagði Hazard.

„Á síðasta tímabili snérist þetta aðallega bara um endurheimt á milli leikja og við vorum ekki alltaf tilbúnir fyrir næsta leik. Það er ekki þannig núna. Við náum að einbeita okkur að næsta mótherja alla vikuna,“ sagði Harzard.

Eden Hazard hefur skorað sjö mörk í fyrstu þrettán leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni en hann skoraði fjögur mörk allt síðasta tímabil. Þau fjögur mörk komu öll í síðustu fimm leikjunum þannig að Eden Hazard hefur nú skorað 11 mörk í síðustu 18 leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×