Enski boltinn

Gary Neville stillir upp besta byrjunarliði United: Enginn Zlatan né Rooney

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Wayne Rooney kemst ekki í liðið hjá sínum gamla liðsfélaga.
Wayne Rooney kemst ekki í liðið hjá sínum gamla liðsfélaga. vísir/getty
Gary Neville, fyrrverandi fyrirliði Manchester United og núverandi sparkspekingur Sky Sports, myndi hvorki velja Zlatan Ibrahimovic né Wayne Rooney, fyrirliða United, í byrjunarliðið ef hann væri stjóri liðsins.

Neville opinberaði sitt byrjunarlið þegar hann sat fyrir svörum í viðtali í Oxford-háskólanum fyrir fullum sal í gær. Þessi viðtöl eða málþing eru víðfræg en þarna hafa mætt sumar af skærustu stjörnum heims og látið spyrja sig spjörunum úr.

Enski landsliðsmaðurinn fyrrverandi var spurður hvernig hann myndi stilla upp byrjunarliði Manchester United en enginn virðist sáttur við eina einustu uppstillingu sem José Mourinho býður upp á.

Valið hjá Neville kemur kannski aðeins á óvart en hann er ekki með Zlatan Ibrahimovic í liðinu, ekki fyrirliðann Wayne Rooney né spænska miðjumanninn Juan Mata sem margir eru sammála um að sé gríðarlega mikilvægur liðinu.

„Auðvelda valið er David De Gea í markið. Svo væri Antonio Valencia í hægri bakverði, Smalling, Eric Bailly og svo líklega Daley Blind í vinstri bakverðinum á þessum tímapunkti,“ segir Neville.

„Ég væri síðan með Paul Pogba vinstra megin inn á miðjunni og Carrick og Ander Herrera með honum. Fyrir framan væri svo Henrik Mkhitaryan hægra megin, Martian vinstra megin og Marcus Rashford frammi.“

„Æi, nei, ég sé fyrirsagnirnar fyrir mér nú þegar. Enginn Rooney eða Zlatan! Ég væri allavega með frábæran bekk,“ segir Gary Neville.

Byrjunarlið Gary Neville: David De Gea; Antonio Valencia, Chris Smalling, Eric Bailly, Daley Blind; Michael Carrick, Ander Herrera, Paul Pogba; Henrikh Mkhitaryan, Anthony Martial, Marcus Rashford.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×