Innlent

Sigurför lególistamannsins Brynjars Karls heldur áfram

Anton Egilsson skrifar
Brynjar Karl var kampakátur þegar skipið var frumsýnt í Smáralind.
Brynjar Karl var kampakátur þegar skipið var frumsýnt í Smáralind. Vísir/Valli
Lególistamaðurinn Brynjar Karl Birgisson heldur áfram að gera það gott en eftirgerð hans af hinu sögufræga Titanic skipi hefur vakið mikla athygli. Tilkynnti hann það á Facebook síðu sinni í dag að Titanic safnið í Branson í Bandaríkjunum hafi leitast eftir því að fá skip hans til sýninga á safninu á næsta ári. 

Eftirgerðin sem gerð er úr 56 þúsund Legókubbum er hin allra glæsilegasta. Skipið tók Brynjar Karl eitt ár í smíði en hulunni var svipt af skipinu við hátíðlega athöfn í Hagkaup í Smáralind í apríl í fyrra.

Brynjar Karl komst fyrst í fréttirnar árið 2014 þá ellefu ára gamall en þá skoraði hann á Legoland að bjóða sér í verksmiðju þeirra í Billund og gefa sér tækifæri til þess að smíða sitt eigið Titanic skip úr legókubbum. Í kjölfar fréttarinnar hófst kubbasöfnun hér á landi svo að Brynjar Karl gæti látið draum sinn rætast. 

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem að Brynjari Karli er boðið að sýna skip sitt á erlendri grundu en Vísir greindi frá því í júní í fyrra að honum hefði verið boðin þátttaka á einni stærstu Legósýningu Norðurlanda. Framtíðin er því án efa björt hjá þessum unga skipasmið.


Tengdar fréttir

Ungur Legosmiður flytur Titanic

Það var stór stund og spenningur í lofti í dag þegar eftirgerðin af Titanic skipinu, sem Brynjar Karl Birgisson 12 ára hefur smíðað úr Legókubbum, var færð frá smíðaverkstæðinu suður í Smáralind til lokafrágangs.

Ellefu ára drengur skorar á LEGOLAND

"Þetta er algjörlega hans hugmynd, í aðeins einfaldari útgáfu,“ segir Bjarney Lúðvíksdóttir, móðir Brynjars Karls um myndband sem að þau mæðginin birtu í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×