Innlent

Formaður Samfylkingarinnar þegar mælt sér mót við Pírata

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Birgitta með formönnum þeirra flokka sem boðaðir hafa verið til viðræðna við Pírata.
Birgitta með formönnum þeirra flokka sem boðaðir hafa verið til viðræðna við Pírata. vísir/eyþór
Oddný G. Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, hefur þegar haft samband við Birgittu Jónsdóttur, einn af umboðsmönnum Pírata vegna stjórnarmyndunar. Stefna þær á að hittast til að kanna mögulegt samstarf.

„Ég er búinn að hafa samband við Birgittu og við ætlum að finna okkur tíma til að hittast,“ segir Oddný í samtali við Vísi. „Þetta verða væntanlega umræður um stefnuna og hvar þræðirnir liggja saman. Hvort að úr þessu verður kosningabandalag er ekkert hægt að segja um á þessu stigi.“

Píratar tilkynntu fyrr í dag að þeir hefðu boðið fjórum flokkum, Samfylkingunni, Bjartri framtíð, VG og Viðreisn til viðræðna um mögulegt samstarf fyrir kosningarnar sem framundan eru 29. október.

Óttar Proppé, formaður Bjartar framtíðar segir að líklegt sé að flokkurinn muni að minnsta kosti setjast niður með Pírötum til að ræða málin. Hann segir þó að knappur tími sé til stefnu.

„Það á alltaf að fagna því þegar fólk talar saman. Ég veit ekki hvort að það sé alveg tímabært tveimur vikum fyrir kosningar að gjörbreyta eðli íslenska kosningakerfisins. segir Óttar í samtali við Vísi. „Það er bjartsýni. Við höfum ekki búið við þann pólítiska stöðugleika að það sé í boði að flokkar gangi bundnir til kosninga eða í kosningabandalögum.“

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir að þau muni setjast niður með Pírötum. Hún segir að það sé eðlilegt að stjórnarandstöðuflokkarnir vinni saman að loknum kosningum.

„Við í VG álykutðum það í febrúar að við vildum stefna að samstarfi stjórnarandstöðuflokkanna. Við höfum talað fyrir því að eðlilegt sé að mynda stjórn um ákveðinn málefni. Píratar stilla upp ákveðnum málefnum sem eru mikilvæg en við erum einnig með okkar málefni eins og stórsókn í menntamálum og umhverfismálum.“

Benedikt Jóhanesson, formaður Viðreisnar, sagði í samtali við Vísi að flokksmenn væru ekki búnir að melta þetta útspil Pírata.


Tengdar fréttir

Píratar boða fjóra flokka til viðræðna um samstarf

Píratar hafa sent forsvarsmönnum Bjartrar framtíðar, Viðreisnar, Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs og Samfylkinginnar bréf þar sem Píratar lýsa sig reiðubúna til þess að hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður fyrir komandi alþingiskosningar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.