Enski boltinn

Stoke krækti í stig á Old Trafford

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Stoke er enn án sigurs í ensku úrvalsdeildinni eftir sjö umferðir en liðinu tókst þó að næla í stig í 1-1 jafntefli gegn Manchester United í hádegisleik dagsins í enska boltanum.

Heimamenn í Manchester United voru mun meira með boltann og voru einfaldlega óheppnir að komast ekki yfir í fyrri hálfleik en staðan var markalaus í hálfleik.

Varamaðurinn Anthony Martial kom United-mönnum yfir með glæsilegu á 69. mínútu stuttu eftir að hafa komið inná sem varamaður ásamt Wayne Rooney.

Lagði hann boltann í hliðarnetið eftir að boltinn hrakk til hans innan vítateigsins hjá Stoke.

Það var hinsvegar gamli Liverpool-maðurinn Joe Allen sem jafnaði metin stuttu fyrir leikslok.

Náði hann þá frákastinu eftir að skot Walters hafnaði í slánni eftir mistök David De Gea og stýrði boltanum í autt netið.

Paul Pogba fékk sannkallað dauðafæri til að koma heimamönnum aftur yfir á 89. mínútu en skalli hans af stuttu færi hafnaði í slánni.

Skyldu liðin því jöfn á Old Trafford en Manchester United missti því af tækifæri til að saxa á topplið Manchester City.

Stoke tókst að lyfta sér upp úr botnsætinu í bili en liðið er þó enn án sigurs eftir sjö umferðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×