Erlent

Aðildarríki ESB samþykkja umsókn Bosníu að sambandinu

Atli Ísleifsson skrifar
Denis Zvizdic, forsætisráðherra Bosníu.
Denis Zvizdic, forsætisráðherra Bosníu. Vísir/Getty
Aðildarríki Evrópusambandsins hafa formlega samþykkt umsókn Bosníu um aðild að sambandinu. Bosnía er þar með litlu skrefi nær því að gerast fullgildur aðili að sambandinu þó að langur vegur bíði þeirra enn.

Framkvæmdastjórn ESB mun nú krefja bosnísk stjórnvöld um svör við fjölda spurninga um hvernig málum sé háttað í landinu. Að því loknu mun landið svo þurfa að uppfylla fjölda skilyrða sem mun vísa veginn þar til að Bosnía hlýtur formlega stöðu umsóknarríkis.

Denis Zvizdic, forsætisráðherra Bosníu, segir daginn í dag vera sögulegan fyrir evrópsku leiðina og evrópska framtíð landsins.

Tyrkland, Svartfjallaland, Serbía, Makedónía og Albanía eru þau ríki sem hafa nú stöðu umsóknarríkis. ESB á þó í reynd einungis í raunverulegum viðræðum við þau þrjú ríki sem fyrst eru nefnd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×