Fótbolti

Elías Már skoraði í þriðja leiknum í röð

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Elías Már Ómarsson er sjóðheitur.
Elías Már Ómarsson er sjóðheitur. mynd/ifk
Keflvíkingurinn Elías Már Ómarsson er heldur betur í stuði með IFK Gautaborg í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta þessa dagana, en hann skoraði í þriðja leiknum í röð í kvöld þegar IFK lagði Östersund á heimavelli, 2-0.

Elías Már skoraði annað mark liðsins á 73. mínútu eftir að Sören Rieks kom heimamönnum yfir í fyrri hálfleik. Þetta var annar sigur Gautaborgarliðsins í röð en það eygir enn von í baráttunni um Evrópusæti.

Elías Már er búinn að skora fjögur mörk í síðustu fimm leikjum fyrir Gautaborg en sænska liðið fékk hann á láni frá Vålerenga í Noregi og er með forkaupsrétt á honum eftir tímabilið.

Birkir Már Sævarsson lagði upp annað mark Hammarby er Íslendingaliðið vann góðan útsigur á Falkenberg, 2-0. Birkir Már lagði upp fyrra markið fyrir Erik Israelsson á 25. mínútu en Pa Dibba tryggði Hammarby sigurinn á 56. mínútu með fyrsta marki sínu fyrir liðið.

Ögmundur Kristinsson stóð vaktina í marki Hammarby að vanda og hélt hreinu en allir Íslendingarnir þrír voru í byrjunarliðinu. Arnór Smárason byrjaði á hægri kantinum. Hammarby er efti sigurinn í níunda sæti með 32 stig en það er búið að vinna tvo af síðustu þremur leikjum sínum.

Jón Guðni Fjóluson er enn þá frá vegna meiðsla hjá Norrköping sem missti af tækifærinu að endurheimta toppsætið þegar liðið tapaði fyrir Djurgården á heimavelli, 3-1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×