Erlent

Enn barist í Sýrlandi þrátt fyrir vopnahlé

Birgir Örn Steinarsson skrifar
Sprengjum var skotið á markað í Idlib í dag en vopnahlé á að hefjast við sólsetur.
Sprengjum var skotið á markað í Idlib í dag en vopnahlé á að hefjast við sólsetur. Vísir/Getty
Enn er barist í Sýrlandi þrátt fyrir samkomulag Bandaríkjanna og Rússlands um vopnahlé. Samið var um að stöðva hernaðaraðgerðir frá og með sólsetri þar í kvöld en frá því að tilkynningin var gefin út hafa bardagar þar aukist ef eitthvað er.

Yfir hundrað manns létust í sprengjuárásum sem gerðar voru í Aleppo héraðinu og í borginni Idlib. Fimmtíu og fimm óbreyttir borgarar létu lífið eftir að sprengja sprakk á markaði í Idlib í dag en fréttastofa Al Jazeera fullyrðir að rússnesk herþota hafi sleppt sprengjunni.

Sprengjuárásirnar í Aleppo héraðinu eru sagðar hafa verið framkvæmdar af Sýrlandsher.

Uppreisnarmenn virða ekki vopnahlé

Uppreisnarherinn Ahrar al-Sham, sem sagður er hafa tengsl við al-Qaeda, gaf frá sér yfirlýsingu á sunnudag þess efnis að þeir ætluðu sér ekki að virða vopnahléð.

Talað er um að ný bylgja ofbeldis hafi farið af stað strax eftir að John Kerry utanríkisráðherra Bandaríkjanna og Sergei Lavrov utanríkisráðherra Rússa tilkynntu um fyrirhugað vopnahlé í Genf í fyrradag. Á morgun hefst Eid al-Adha hátíðin sem múslimar á heimsvísu fagna árlega.

Samkomulag Rússa og Bandaríkjanna snérist einnig um að sameina krafta sína gegn herjum ISIS í Sýrlandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×