Erlent

Útilokar að ríkisfé verði lagt í byggingu Guggenheim-safns í Helsinki

Atli Ísleifsson skrifar
Vinningstillaga Moreau Kusunoki .
Vinningstillaga Moreau Kusunoki . Mynd/designguggenheimhelsinki.org
Timo Soini, utanríkisráðherra Finnlands og leiðtogi hægriflokksins Sannra Finna, hefur útilokað að fé úr sjóðum ríkisins verði lagt í byggingu nýs Guggenheim-safns við sjávarsíðuna í Helsinki.

Soini lét orðin falla í bloggfærslu og segir að málið verði ekki tekið upp við komandi fjárlagagerð. „Ég vona að þetta sé nú samstarfsflokkum okkar ljóst,“ segir Soini en Sannir Finnar mynda ríkisstjón í Finnlandi ásamt Miðflokknum og Þjóðarbandalaginu.

Efnahagsmálaráðherrann Olli Rehn lagði til í síðasta mánuði að finnska ríkið gæti lagt til 40 milljónir evra, um fimm milljarða króna, upp í áætlaðan 150 milljóna evra byggingarkostnað. Margir vonast að með byggingu safnsins verði hægt að lokka bæði ferðamenn og frekari erlenda fjárfesta til borgarinnar.

Í frétt Guardian er haft eftir Soini að flokkur hans sé ekki mótfallinn framkvæmdinni, einungis að opinbert fé sé lagt í hana.

Hugmyndir um safnið komu fyrst upp árið 2011 og mættu til að byrja með mikilli andstöðu. Hönnunarsamkeppni var þó haldin á síðasta ári þar sem tillaga frönsku arkitektanna Moreau Kusunoki varð fyrir valinu.

Stuðningsmenn hugmyndarinnar segja að framkvæmdin myndi hafa jákvæð áhrif á efnahags- og menningarlíf borgarinnar og benda á Guggenheim-safnið í spænsku borginni Bilbao hafi haft ómæld jákvæð áhrif á borgina eftir að það var opnað árið 1997.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×