Erlent

Duterte sagður hafa fyrirskipað morð á andstæðingum sínum

Samúel Karl Ólason skrifar
Edgar Matobato þar sem hann bar vitni fyrir þingnefnd sem rannsakar stríð Duterte gegn fíkniefnu.
Edgar Matobato þar sem hann bar vitni fyrir þingnefnd sem rannsakar stríð Duterte gegn fíkniefnu. Vísir/EPA
Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, er sagður hafa skipað vopnuðum hópum manna að myrða glæpamenn og andstæðinga sína. Þetta á hann að hafa gert þegar hann var borgarstjóri Davao í suðurhluta Filippseyja. Um þúsund manns voru myrtir á um 25 árum.

Þetta segir fyrrverandi meðlimur einnar af dauðasveitum Duterte í borginni.

„Starf okkar var að drepa glæpamenn eins og fíkniefnasala, nauðgara og mannræningja,“ sagði Edgar Matobato við meðlimi þingnefndar þar í landi. Þingnefndin er leidd af Leila de Lima, sem hefur gagnrýnt svokallað stríð Duterte gegn fíkniefnum í Filippseyjum.

Minnst 3.000 meintir fíkniefnasalar og neytendur hafa verið myrt frá því að Duterte tók við völdum í júní. Forsetinn hefur sakað de Lima um að tengjast fíkniefnasölu og að bílstjóri hennar hafi verið á launaskrá glæpagengja.

Gerðu árásir á moskur

Matobato segir einnig að Duterte hafi skipað hinni alræmdu Davao dauðasveit að myrða andstæðinga sína og þar á meðal voru fjórir lífverðir Prospero Nograles sem hafði boðið sig fram til borgarstjóra gegn Duterte.

Auk þess hafi forsetinn skipað dauðasveitinni að gera árásir á moskur eftir árás á kirkju í borginni árið 1993.

Talsmaður forsetans þvertekur fyrir þessar ásakanir. Hann segir að yfirvöldum Filippseyja hafi ekki einu sinni tekist að sanna að Davao dauðasveitin hefði verið raunveruleg.

Meðal fórnarlamba sem Matobato nefndi við þingnefndina var útvarpsmaður sem hafði gagnrýnt Duterte. Hann var skotinn til bana á götum Davao borgar á leið heim úr vinnu. Þá segir hann að dauðasveitin hafi myrt viðskiptamann sem hafði deilt við son Duterte um konu.

Matobato segist hafa verið í vitnavernd undanfarin ár, þar sem meðlimir dauðasveitarinnar hafi reynt að drepa hann fyrir að vilja yfirgefa sveitina. Hann segist hafa farið í felur eftir að Duterte tók við embætti. Hann hafi nú stigið fram tli þess að reyna að binda enda á drápin í landinu.


Tengdar fréttir

Kallaði Obama hóruson

Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, varaði Obama við því að gagnrýni sig fyrir mannréttindabrot.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×