Erlent

Flokkur Pútíns vann stórsigur: Kosningaþátttaka hefur aldrei verið minni

Atli Ísleifsson skrifar
Dmitri Medvedev, forsætisráðherra Rússlands, og Vladimír Pútín Rússlandsforseti.
Dmitri Medvedev, forsætisráðherra Rússlands, og Vladimír Pútín Rússlandsforseti. Vísir/AFP
Sameinað Rússlands, flokkur Vladimírs Pútín Rússlandsforseta, tryggði sér meirihluta þingsæta í rússnesku þingkosningunum sem fram fóru í gær.

Þegar búið var að telja 93 prósent atkvæða hafði flokkurinn tryggt sér 54,2 prósent atkvæða og 343 af 450 þingsætum í Dúmunni.

Pútín segir að flokkurinn hafi náð mjög góðri niðurstöðu, en þátttaka í kosningunum var mjög lítil, 47,8 prósent, og hefur aldrei verið minni.

Í frétt BBC segir að Kommúnistaflokkurinn og þjóðernisflokkurinn LDPR hafi báðir hlotið rúmlega 13 prósent atkvæða í kosningunum. Flokkurinn Réttlátt Rússland hlaut sex prósent atkvæða, en allir eru flokkarnir handgengnir forsetanum.

Helstu stjórnarandstöðuflokkarnir, Yabloko og Parnas, hlutu 1,89 prósent og 0,7 prósent atkvæða.

Sameinað Rússland hlaut 49 prósent atkvæða í kosningunum 2011 og hefur því aukið meirihluta sinn á þingi. Kosningaþátttaka var um 60 prósent árið 2011.

Formaður kjörstjórnar, Ella Pamfilova, segist sannfærð um að kosningarnar hafi farið fram á lögmætan hátt þó hún segi að fréttir um misferli hafi borist frá þremur kjörstöðum. Óháðir eftirlitsaðilar hafa fengið fjölmargar tilkynningar um meint kosningasvindl.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×