Erlent

Duterte iðrast orða sinna

Atli Ísleifsson skrifar
Duterte og Obama eru nú báðir staddir í Laos á leiðtogafundi EAS- og ASEAN-þjóða.
Duterte og Obama eru nú báðir staddir í Laos á leiðtogafundi EAS- og ASEAN-þjóða. Vísir/EPA
Talsmaður filippseyska forsetans, Rodrigo Duerte, segir forsetann sjá eftir orðum sínum þar sem hann kallaði Barack Obama Bandaríkjaforseta „hóruson“. Segir hann að orðin hafi ekki verið ætluð sem persónulega árás á Obama.

Duterte og Obama eru nú báðir staddir í Laos á leiðtogafundi EAS- og ASEAN-þjóða. Obama ákvað að aflýsa fyrirhuguðum fundi þeirra eftir að Duterte lét orðin falla.

Duterte er afar umdeildur en eftir að hann komst til valda fyrr á árinu hefur staðið yfir herferð gegn eiturlyfjasölu í landinu þar sem um 2.400 manns hafa verið teknir af lífi án dóms og laga.

Obama lofaði því á blaðamannafundi að hann myndi taka málið upp við Duterte og þegar sá síðarnefndi var inntur eftir viðbrögðum við því þá brást hann hinn versti við og kallaði Bandaríkjaforseta öllum illum nöfnum.

Ólíklegt þykir að Obama endurskoði afstöðu sína, en hann mun í stað þess að funda með Duterte eiga tvíhliða fund með suður-kóreska forsetanum Park Geuen-hye.

Orðaval Duterte forseta hafa lengi þótt groddalegt og þannig hefur hann áður kallað bæði Ban Ki-moon, aðalritara Sameinuðu þjóðanna, og Frans páfa „hórusyni“.


Tengdar fréttir

Kallaði Obama hóruson

Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, varaði Obama við því að gagnrýni sig fyrir mannréttindabrot.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×