Enski boltinn

Fyrsta tap Mourinho kom í nágrannslagnum

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Fullkomin byrjun Manchester City á tímabilinu hélt áfram í dag á útivelli gegn erkifjendunum í Manchester United en þetta var fyrsta tap Manchester United undir stjórn Jose Mourinho.

Lauk leiknum með 2-1 sigri Manchester City en öll mörk leiksins komu í fyrri hálfleik eftir að gestirnir komust 2-0 yfir.

Kevin De Bruyne, besti maður vallarins í dag, kom City yfir á 15. mínútu eftir góða skyndisókn er hann nýtti sér mistök Daley Blind og renndi boltanum framhjá David De Gea í marki heimamanna.

Á 36. mínútu bætti Kelechi Iheanacho sem fékk tækifæri í fremstu víglínu City-manna í dag við öðru marki. Stýrði hann boltanum í netið af stuttu færi eftir skot De Bruyne í stöngina.

Claudio Bravo sem lék frumraun sína í marki City-manna hleypti þeim rauðklæddu inn í leikinn á nýjan leik er hann færði Zlatan Ibrahimovic mark á silfufati á 42. mínútu.

Þeir rauðklæddu sóttu af krafti í seinni hálfleik og komust oft í álitlegar stöður en náðu ekki að ógna markinu af krafti.

Komst De Bruyne næst því að bæta við marki þegar skot hans hafnaði í stönginni korteri fyrir leikslok en það kom ekki að sök og fögnuðu þeir bláklæddu því sigrinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×