Erlent

Öryggisráðið kallað saman vegna kjarnorkutilraunar N-Kóreu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Öryggisráðið hefur verið kallað saman.
Öryggisráðið hefur verið kallað saman. Mynd/Getty
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur verið kallað saman til þess að ræða mögulegar aðgerðir vegna kjarnorkutilrauna Norður-Kóreu. Heimsins helstu leiðtogar fordæma tilraunir N-Kóreumanna sem sprengdu í nótt sína stærstu kjarnorkusprengju til þessa.

Tilraunin var framkvæmd þrátt fyrir bann alþjóðasamfélagsins á kjarnorkutilraunir N-Kóreumanna. Fastlega er gert ráð fyrir að Öryggisráðið ræði frekari refsiaðgerðir gagnvart N-Kóreu.

Fyrsta kjarnorkutilraun N-Kóreu fór fram árið 2006 en síðan þá hafa fimm mismunandi viðskiptaþvinganir hafa verið settar á ríkið af Sameinuðu þjóðunum. Hafa þær allar haft lítil sem engin áhrif sem og viðræður meðal helstu ríkja heims um að koma verði í veg fyrir kjarnorkuáætlanir einræðisríkisins.

Yfirvöld í Suður-Kóreu gera ráð fyrir að sprengjan sem sprengd var í nótt hafi verið tíu kílótonn. Aðrir sérfræðingar segja að hún gæti hafa verið allt að tuttugu kílótonn. Til samanburðar má nefna að kjarnorkusprengjan sem varpað var á Hiroshima árið 1945 var 15 kílótonn.

Bandaríkjamenn, Rússar, Japanir og Alþjóðaorkumálastofnunin hafa öll fordæmt tilraunir N-Kóreu og þá hafa Kínverjar, helstu bandamenn Norður-Kóreu, formlega mótmælt tilraun N-Kóreu í nótt.

Í yfirlýsingu sem lesin var upp í norður-kóreska ríkisútvarpinu er talað um að sprengingin í nótt hafi meðal annars verið til að sýna óvinum landsins að viðskiptaþvinganirnar beri engan árangur.


Tengdar fréttir

Stærsta kjarnorkusprenging Norður Kóreu til þessa

Norður Kóreumenn sprengdu í nótt kjarnorkusprengju í tilraunaskyni. Sprengjan er talin hafa verið öflug, enda framkallaði hún jarðskjálfta sem mældist 5,3 stig og telja sérfræðingar að þetta hafi verið öflugasta tilraunasprenging þeirra til þessa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×