Erlent

Segir Norður-Kóreu meðal fremstu kjarnorkuvelda

Samúel Karl Ólason skrifar
Mikil fagnaðarlæti brutust út meðal Kim og aðstoðarmanna hans eftir að skotið heppnaðist.
Mikil fagnaðarlæti brutust út meðal Kim og aðstoðarmanna hans eftir að skotið heppnaðist. Myndir/KCNA
Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, segir að vel heppnað tilraunaskot á dögunum sýni að landið sé meðal fremstu kjarnorkuvelda. Herinn skaut í gær eldflaug úr kafbáti og flaug hún í um 500 kílómetra í áttina að Japan.

Á vef opinberrar fréttaveitu Norður-Kóreu segir að Kim hafi leitt tilraunaskotið í gær og myndir voru birtar af honum fagna með meðlimum hersins.

Sjá einnig: Eldflaugatilraunir Norður-Kóreu halda áfram

Samkvæmt Reuters fréttaveitunni var eldflauginni skotið á loft úr eina kafbáti landsins sem er þess til gerður. Yfirvöld í Japan segja eldflaugina hafa náð inn á loftvarnasvæði þeirra og er það í fyrsta sinn sem eldflaug frá Norður-Kóreu fer svo langt.

Eftir skotið gáfu yfirvöld í Kína út að þau væru andsnúin kjarnorku- og eldflaugaáætlun Norður-Kóreu.

Yfirvöld í Pyongyang hafa haldið því fram að þeim hafi tekist að framleiða kjarnorkuvopn sem mögulegt væri að koma fyrir í eldflaug sem drægi jafnvel til Bandaríkjanna, svokallað "re-entry" en það hefur verið dregið í efa af sérfræðingum.

Í síðasta mánuði tilkynntu yfirvöld Bandaríkjanna og Suður-Kóreu að svokölluðu THAAD-kerfi yrði komið fyrir til að sporna gegn mögulegum kjarnorkumætti Norður-Kóreu. Kínverjar og Norður-Kórea hafa mótmælt uppsetningu slíks kerfis í Suður-Kóreu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×