Enski boltinn

Messan: Er Sturridge leikmaður að skapi Klopp?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Óvíst er hvort að Daniel Sturridge eigi sér framtíð hjá Liverpool en enskir fjölmiðlar hafa fullyrt að hann sé óánægður hjá félaginu.

Sturridge kom seint inn á sem varamaður í leik Liverpool og Tottenham um helgina. Fyrr í leiknum hafði Divock Origi kominn inn á sem varamaður.

„Þessi svipur segir meira en nokkur orð, þegar hann er að velta fyrir sér af hverju Origi sé að koma inn á en ekki hann,“ sagði Guðmundur Benediktsson í þætti gærkvöldsins og veltir fyrir sér hvort að Sturridge sé ekki sú tegund af leikmanni sem hann vill hafa í sínu liði.

„Að hann trúi ekki að Sturridge sé tilbúinn að vinna eins og að hann vill að framherjar vinni fyrir sitt lið.“

Bjarni Guðjónsson bendir á að Liverpool hafi verið í forystu þegar skiptingin átti sér stað og að liðið hafi þurft einhvern til þess að hjálpa því að verjast.

„Ég er samt alveg sammála hinu. Klopp vill meiri baráttuhunda í sitt lið og menn sem eru tilbúnir að berjast og hlaupa í 90 mínútur.“

Hjörvar Hafliðason hafði skemmtilega sögu að segja frá leik Íslands og Englands í Nice um Sturridge.

„Þar sat ég með miklum Liverpool-manni sem sá einhvern svip á Daniel Sturridge og sagði bara að Sturridge væri búinn. Hann væri farinn í fýlu og myndi ekki gera neitt meira í þessum leik.“

„Hann gat ekki haft meira rétt fyrir sér því hann hætti einfaldlega.“

Umræðuna má sjá alla í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×