Innlent

Ingibjörg segir Ólaf saklausan og hafa verið dæmdan af reiðu og örvæntingarfullu samfélagi

Atli Ísleifsson skrifar
Ingibjörg Kristjánsdóttir.
Ingibjörg Kristjánsdóttir. Vísir/Pjetur
Ingibjörg Kristjánsdóttir, eiginkona Ólafs Ólafssonar, segir eiginmann sinn hafa verið dæmdur saklaus af reiðu og örvæntingarfullu samfélagi.

Þetta kemur fram í grein Ingibjargar sem birtist á Vísi fyrr í dag.

Þar fjallar hún um heimsóknir sínar í Kvíabryggjufangelsið þar sem Ólafur afplánaði hluta af fjögurra og hálfs árs dómi sem hann fékk fyrir sinn hlut í Al Thani-málinu svokallaða í upphafi síðasta árs. Ólafur afplánaði hluta dómsins á Kvíabryggju en hann dvelur nú á Vernd.

Ingibjörg segir í grein sinni að verkefni morgundagsins hjá sér verði að reyna að fyrirgefa samfélaginu dómhörkuna. Hún segist finna að hún sé á góðri leið með það, en erfiðara verði fyrir sig „að fyrirgefa kerfinu, kaldrifjuðum dómurum og embættismönnum sem [verndi] sína menn út í hið óendanlega og metnaðarlausum stjórnmálamönnum sem [hafi] ekki þor til að stíga fram og stoppa þessa aðför að saklausu fólki.“

Áfram segir Ingibjörg að verkefni samfélagsins verði hins vegar óneitanlega að „horfast í augu við hve hrapalega okkur [hafi] mistekist að gera upp efnahagshrunið á réttlátan og heiðarlegan máta. Nornaveiðar samtímans munu snúast uppí skömm morgundagsins,“ segir Ingibjörg.

Í greininni segir Ingibjörg jafnframt að þegar hún líti yfir Kvíabryggjufangelsið sé tilhugsunin um „að þarna inni sitji hugsanlega fleiri menn, saklausir eins og maðurinn minn, dæmdir af reiðu og örvæntingarfullu samfélagi [sé] ekki góð. Sú staðreynd að dómum samfélagsins var síðan löngu seinna, á kaldrifjaðan og þaulskipulagðan hátt, fylgt eftir af stórgölluðu dómskerfi, rekið áfram af annarlegum hagsmunum dómara sem eru virkir þáttakendur og partur af þessu samfélagi, tengdir fjölskyldu- og vinaböndum þvers og kruss….er heldur verri,“ segir Ingibjörg.

Lesa má greinina í heild sinni hér.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×