Bandaríski forsetaframbjóðandinn Donald Trump hefur hrist verulega upp í kosningaliði sínu í annað sinn á síðustu tveimur mánuðum. Búið er að skipa nýjan kosningastjóra og nýjan framkvæmdastjóra.
Kellyanne Conway, sérfræðingur í skoðanakönnunum, hefur verið skipuð kosningastjóri framboðsins og Stephen Bannon, starfsmaður vefsíðunnar Breitbart News, hefur verið skipaður framkvæmdastjóri. Paul Manafort verður áfram formaður framboðsins.
Trump segir í samtali við AP að nýja fólkið sé frábært, sannkallaðir sigurvegarar.
Fylgi Trumps hefur dalað umtalsvert síðustu vikurnar og hefur Hillary Clinton mælst með nokkurt forskot í flestum þeim ríkjum þar sem demókratar og repúblikanar heyja hvað harðasta baráttu og úrslit kosninganna eru talin munu ráðast.
Skipanirnar koma nú þegar einungis 82 dagar eru til kosninganna.
