Erlent

Hvetja til kaupa olíuhlutabréfa

Sæunn Gísladóttir skrifar
Brent-hráolía hefur hækkað um 17 prósent í mánuðinum.
Brent-hráolía hefur hækkað um 17 prósent í mánuðinum. Fréttablaðið/Getty
Sérfræðingar hjá Bank of America Merrill Lynch mæla með að fjárfestar kaupi hlutabréf í olíufyrirtækjum.

Í ágústmánuði hefur olíuverð hækkað töluvert. Brent-hráolía hafði um eftirmiðdaginn í gær hækkað um 17 prósent í mánuðinum og var verðið 49,7 dollarar á tunnu og West Texas-hráolía hafði hækkað um 12 prósent, í 46,7 dollara á tunnu.

Það sem af er ári hefur olíuverð hækkað um 25 prósent eftir gríðarlegar lækkanir á síðasta ári. Verð á hlutabréfum í orkufyrirtækjum á það til að fylgja sveiflu olíuverðs og hafa þau hækkað um fjórtán prósent það sem af er ári.

Bank of America spáir því að olíuverð muni hækka um 50 prósent á komandi ári og muni verða 69 dollarar á tunnu í júní. Sérfræðingar bankans telja að minni framleiðsla og aukin eftirspurn muni skapa umframeftirspurn eins og átti sér stað árið 2011.

Sagan sýnir að þegar olíuverð hækkar um fjórðung hækki hlutabréfaverð í orkufyrirtækjum umfram önnur S&P 500 fyrirtæki í níutíu prósentum tilfella. 



Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 18. ágúst 2016




Fleiri fréttir

Sjá meira


×