Innlent

Hreiðar Már hefur kært starfsmenn sérstaks saksóknara

Birgir Olgeirsson skrifar
Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings.
Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings. Vísir/GVA
Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, hefur kært starfsmenn sérstaks saksóknara til ríkissaksóknara fyrir að hafa leynt gögnum sem Hreiðar Már segir að hafi sannað sakleysi sitt í máli þar sem hann var sýknaður.

Frá þessu var greint í kvöldfréttum Sjónvarpsins en með dómsúrskurði í desember í fyrra fékk Hreiðar Már aðgang að tölvuskeytum sem lögregla hafði lagt hald á úr tölvukerfi Kaupþings, en áður hafði saksóknari aðeins veitt sakborningum í dómsmálum tengdum Kaupþingi aðgang að gögnum sem saksóknari lagði sjálfur fram í dómi.

Í janúar síðastliðnum var Hreiðar Már, ásamt Sigurði Einarssyni, fyrrverandi stjórnarformanni Kaupþings, og Magnúsi Guðmundssyni, sýknaður í héraðsdómi af ákæru um að hafa samþykkt að lána Tortóla-félögum í eigu Ólafs Ólafsson, Karenar Millen og fleiri viðskiptavin samtals hátt í 70 milljarða króna rétt fyrir bankahrunið árið 2008.

Í kvöldfréttum RÚV kom fram að vísað var til skeytanna sem Hreiðar Már fékk með dómsúrskurði í forsendum sýknudómsins en í skeytunum kom fram að tryggingar hafi verið fyrir lánunum, andstætt því sem haldið var fram í ákæru. Ríkissaksóknari hefur áfrýjað sýknudómnum til Hæstaréttar.

Hreiðar Már afplánar dóm í Al Thani-málinu á Vernd en hefur verið sakfelldur í tveimur öðrum málum til viðbótar sem hann hefur áfrýjað til Hæstaréttar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.