Innlent

Ómar segir hæpið að hin dæmdu í Geirfinnsmálinu hafi verið sek

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Erla Bolladóttir, sakborningur, heldur ræðu fyrir dómnum.
Erla Bolladóttir, sakborningur, heldur ræðu fyrir dómnum. Mynd/Ljósmyndasafn Reykjavíkur
Frásögnin af Guðmundar- og Geirfinnsmálinu sem áður hefur verið tekin sem gild er hæpin. Þetta segir Ómar Ragnarsson. Frásögnina sem hann birtir í nýrri bók sinni, Hyldýpinu, segir hann trúverðugri.

„Já já, það þýðir það,“ svarar Ómar aðspurður hvort hópur ungmenna sem Hæstiréttur dæmdi sek í málinu hafi í raun ekki komið að því.

„Fyrir fjórtán árum komu að máli við mig tvær manneskjur sem eru aðalgerendur í þessari bók og reifuðu aðra frásögn af því sem gerðist og útskýra mjög vel af hverju Geirfinnur hafi ekki fundist.“

Á þeim tíma hafði Ómar mikið að gera og lauk ekki bókinni sökum tímaleysis og týnds handrits. Hann hefur nýlega tekið þráðinn upp á ný og nú gefið hana út. 

„Núna að undanförnu hafa birst upplýsingar sem gera þessa frásögn eins og hún var tekin gild enn hæpnari en hún var,“ segir Ómar og spyr hvort ekki þurfi að huga að því hvað gerðist í raun og veru ef hin frásögnin stenst ekki.

„Ég get hvorki afsannað né sannað að þessi frásögn sé rétt en mér finnst hún trúverðug og hún gefur nýjan vinkil,“ segir Ómar. Lesendur verði að skera úr um það sjálfir hvort viðmælendur hans hafi komið að málinu með saknæmum hætti.

„Hver sá sem les getur sjálfur dregið sínar ályktanir,“ segir Ómar.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×