Erlent

Eagle hætt við framboð sitt

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Jeremy Corbyn, formaður Verkamannaflokksins, og Angela Eagle
Jeremy Corbyn, formaður Verkamannaflokksins, og Angela Eagle Nordicphotos/AFP
Angela Eagle sækist ekki lengur eftir formannsembætti Verkamannaflokksins í Bretlandi.

Eagle tilkynnti um þetta á blaðamannafundi í gær. Hún sagðist draga framboðið til baka með hag flokks síns að leiðarljósi og lýsti yfir stuðningi við þingmanninn Owen Smith sem er nú einn í framboði gegn sitjandi formanni, Jeremy Corbyn.

Farið var fram á formannskosningar í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu um brotthvarf Bretlands úr Evrópusambandinu. Þótti þingmönnum Corbyn ekki standa sig nógu vel í að berjast gegn því.

Meðlimir flokksins sem skráðu sig fyrir 12. janúar á þessu ári munu nú kjósa á milli frambjóðendanna tveggja næstu tvo mánuði, hafi þeir greitt andvirði 5.000 króna fyrir daginn í dag. Úrslitin verða kynnt 24. september í Liverpool. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 20. júlí




Fleiri fréttir

Sjá meira


×