Franska lögreglan hefur stóraukið viðbúnað sinn í París en þar fer úrslitaleikur Evrópumótsins fram í kvöld. Rúmlega 5000 lögreglumenn gæta öryggis á helstu samkomustöðum stuðningsmanna í borginni.
Evrópumótið í knattspyrnu í Frakklandi hefur verið haldið í skugga hryðjuverkaógnar í kjölfar þeirra árása sem gerðar voru í París í nóvember þar sem 130 létu lífið. Öryggisgæsla á mótinu hefur því verið mikil og nær hámarki í dag þegar Frakkar leika til úrslita gegn Portúgölum á Stade de France vellinum í París.
Lögreglan og herinn hafa gætt öryggis almennings á mótinu en rúmlega 5000 lögreglumenn verða á vaktinni í frönsku höfuðborginni í dag. 3400 lögregluþjónar verða í kringum leikvanginn sjálfan og 1900 við stuðningsmannasvæðið sem staðsett er við Eiffel turninn.
Öryggisgæslan á mótinu hefur verið mikil en talið er að í kringum 90000 manns hafa komið að gæslu á leikvöngum, stuðnginsmannasvæðum og á götum úti meðan á mótinu hefur staðið. Vinni Frakkar evrópumeistaratitilinn í kvöld verður engin sigurhátíð haldin í borginni líkt og gert var þegar Frakkar urðu heimsmeistarar fyrir átján árum vegna öryggissjónarmiða.
Þá voru milljón manna sem fögnuðu franska liðinu á götum úti en í ljósi atburða síðasta árs treysta yfirvöld sér ekki til að gæta öryggis svo margra í borginni. Frökkum hefur tekist vel til með öryggisgæslu á mótinu ef frá eru talin atvik sem urðu milli stuðningsmanna Englendinga og Rússa í Marseille í upphafi mótsins.
Gríðarleg öryggisgæsla fyrir úrslitaleik EM
Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
