Erlent

Æfðu kjarnorkuárás á Suður-Kóreu

Samúel Karl Ólason skrifar
Kim Jong-Un fylgist með eldflaugaskoti í mars.
Kim Jong-Un fylgist með eldflaugaskoti í mars. Vísir/AFP
Yfirvöld í Norður-Kóreu segja að eldflaugaskot þeirra í gær hafi verið til þess að æfa kjarnorkuárás á nágranna sína í suðri. Þremur eldflaugum var skotið út á Japanshaf í gær og fóru þær 500 til 600 kílómetra áður en þær hröpuðu í hafið.

Þær vegalengdir duga til þess að gera eldflaugaárás á alla Suður-Kóreu.

Samkvæmt tilkynningu frá Norður-Kóreu skipaði Kim Jong-Un, einræðisherra landsins, fyrir um að æfingin ætti að fara fram og fylgdist hann persónulega með henni. Æfingunni var gert að líkja eftir skyndiárás á hafnir og flugvelli þar sem Bandaríkin eru með viðveru.

Með eldflaugaskotunum í gær var verið að æfa það að sprengja kjarnorkusprengjur í ákveðinni hæð yfir skotmörkum sínum.

Mikil spenna hefur verið á svæðinu frá því að Norður-Kórea sprengdi kjarnorkusprengju í tilraunaskyni í janúar og hafa þeir skotið fjölmörgum eldflaugum á loft á síðustu mánuðum. Hins vegar hefur spennan aukist verulega á síðustu vikum eftir að yfirvöld í Bandaríkjunum og Suður-Kóreu tilkynntu að til stæði að koma eldflaugavarnarkerfi fyrir í Suður-Kóreu.

Bæði Norður-Kórea og Kína hafa sett sig á móti uppsetningu slíks kerfis.


Tengdar fréttir

Norður-Kórea reyndi eldflaugaskot

Norður-Kóreumenn reyndu enn eitt eldflaugaskotið í nótt en í þetta sinn virðist sem það hafi mistekist, að sögn talsmanna hersins í Suður-Kóreu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×