Fótbolti

Heimir: Þó menn væru tæpir vegna meiðsla myndu þeir ekki segja frá því

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Heimir Hallgrímsson ætlar að koma Íslandi í 16 liða úrslitin.
Heimir Hallgrímsson ætlar að koma Íslandi í 16 liða úrslitin. vísir/vilhelm
„Við eigum enn eftir að spila okkar besta leik,“ sagði Heimir Hallgrímsson, annar landsliðsþjálfara Íslands, á blaðamannafundi íslenska liðsins á Stade France í gær fyrir leikinn gegn Austurríki í dag.

Stig dugar strákunum okkar til að komast í 16 liða úrslitin en með sigri eiga þeir möguleika á að vinna riðilinn. Þrátt fyrir að vera með tvö stig og vera enn ósigraðir eru allir sammála um að íslenska liðið hefur ekki spilað frábærlega, nema þá varnarleikinn.

„Hvort góði leikurinn okkar komi núna eða í leiknum þar á eftir veit ég ekki. Ég veit samt að Austurríkismenn eru sömu skoðunar. Þeir eiga eftir að spila góða leikinn sinn. Vonandi kemur hann ekki á morgun. Okkur hlakkar bara til,“ sagði Heimir.

Austurríska liðið hefur ollið miklum vonbrigðum á mótinu en það á enn eftir að skora mark. Þetta er lið sem vann sinn riðil í undankeppninni með því að vinna níu leiki af tíu og gera eitt jafntefli. Þá var það búið að skora í 22 landsleikjum í röð áður en kom að EM.

„Austurríki hefur ekki náð upp góðum leik en þetta er sterkt lið, aggresívt og samstilt bæði í vörn og sókn. Það hefur líka leikmenn sem geta unnið leikinn upp á eigin spýtur. Það hefur ekki sýnt sínar bestu hliðar á mótinu og vonandi heldur það áfram,“ sagði Heimir.

Aðspurður hvort allir íslensku leikmennirnir séu heilir og klár í slaginn svaraði Heimir: „Já, það eru allir tilbúnir. Það iða allir í skinninu að spila svona leik. Þó menn væru tæpir myndu menn aldrei segja frá því.“

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir

Enginn tilbúinn að kveðja EM í dag

Íslenska landsliðið mætir Austurríki á Stade de France í lokaleik liðsins í París í dag. Nái strákarnir okkar ekki góðum úrslitum kveðja þeir Frakkland og það sem meira er, þetta yrði síðasti leikur Lars Lagerbäck.

EM dagbók: Sjáumst á fimmtudag!

Starfsfólkið á hóteli okkar fjölmiðlamanna í Annecy er yndislegt. Þetta er fremur lítið hótel sem er þekktara fyrir veitingastaðinn sinn en sjálfa hótelstarfsemina. Stjarna matseðilsins er lasanja "hennar mömmu“ eins og rétturinn er auglýstur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×