Fótbolti

Heimir: Menn voru bara að missa sig

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Heimir Hallgrímsson stýrir æfingu í góða veðrinu í Annecy í dag.
Heimir Hallgrímsson stýrir æfingu í góða veðrinu í Annecy í dag. vísir/vilhelm
„Auðvitað eru allir þreyttir og það er smá spennufall í hópnum en það er ekki annað hægt en að líða mjög vel núna,“ sagði Heimir Hallgrímsson, annar landsliðsþjálfara Íslands í fótbolta, við Vísi eftir æfingu strákanna okkar í Annecy í dag.

Ísland komst í 16 liða úrslit á EM 2016 í gærkvöldi þegar liðið lagði Austurríki, 2-1, með sigurmarki Arnórs Ingva Traustasonar í uppbótartíma. Ísland mætir næst Englandi á mánudagskvöldið í Nice.

Við vorum að ná markmiðunum okkar. Fyrsta markmið var að komast upp úr riðlinum og við náðum því og erum enn þá taplausir í þessu móti. Það er bara létt yfir öllum. Auðvitað eru margir mjög þreyttir en andleg líðan er mjög góð,“ sagði Heimir.

Um leið og Arnór Ingvi skoraði sigurmarkið flautaði dómarinn leikinn af. Strákarnir og þjálfararnir fóru þá til þeirra 10.000 Íslendinga sem voru á leiknum og fögnuðu með þeim. Heimir átti erfitt með að lýsa því sem þarna fór fram í orðum.

„Það yrði bara kjánalegt að lýsa einhverjum tilfinningum en menn voru bara að missa sig. Ekkert endilega bara vegna þess að við unnum leikinn eða komumst áfram heldur bara hvernig þetta var. Þetta var svo mikill rússíbani því það lá á okkur,“ sagði Heimir.

Íslenska liðið bakkaði mjög aftarlega í seinni hálfleiknum þegar það var að verja forskotið og svo stöðuna 1-1. Varnarleikurinn var góður sem fyrr en þetta var aðeins of mikið að mati þjálfarans.

„Við vorum komnir aðeins of aftarlega og fengum bardagann inn í teiginn okkar sem við viljum helst ekki. Það sem vantaði í gær var að við settum meiri pressu á manninn með boltann,“ sagði Heimir við Vísi.

„Svo fór maður bara að horfa yfir liðið og sá að það var til of mikils ætlast að menn væru í sprettum fram og til baka. Það var steikjandi hiti og menn voru orðnir vatnslitlir og súrir. Kannski var það best í stöðunni að loka svæðunum og það er betra að gera það aftar á vellinum,“ sagði Heimir Hallgrímsson.

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×