Knattspyrnusamband Íslands hefur boðið tíu meðlimum Tólfunnar, stuðningsmannasveit íslenska landsliðsins, á leik Íslands og Englands í 16-liða úrslitum EM í Frakklandi.
Leikurinn fer fram í Nice og segir Ómar Smárason, fjölmiðlafulltrúi KSÍ, að það hafi verið ákveðið að bjóða tíu meðlimum Tólfunnar til Frakklands til að fara á leikinn. KSÍ mun sjá um kostnað vegna flugs, gistingu og miða á leikinn.
„Það kom aldrei neitt erindi frá Tólfunni um þetta,“ segir Ómar í samtali við Vísi. „En við erum að bregðast við þrýstingi frá þjóðinni eftir að hafa fengið gríðarlegt magn af tölvupósti og skilaboðum á Facebook til okkar.“
„Það eru allir sammála um að stemningin á leikjum Íslands hefur verið stórkostleg og Tólfan á stóran þátt í því. Við vildum því efla þessa sveit þrjú þúsund stuðningsmanna Íslands sem verða á leiknum.“
Áður hafði Benjamín Hallbjörnsson, formaður Tólfunnar, sagt í viðtali við Vísi að ekki hefði verið til meira fjármagn hjá Tólfunni eftir riðlakeppnina til að fylgja liðinu áfram eftir í 16-liða úrslitin.
„Kannski verður þetta einhver klikkun og við förum aftur á sunnudaginn,“ sagði hann þá.
Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, greindi svo frá því í gær að KSÍ myndi bregðast við þessu og skoða þann möguleika að hjálpa Tólfunni að komast á leikinn í Nice á mánudag.

