Fótbolti

Skrautleg spá fyrir íslenska riðilinn á EM | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hvað ætli Lars Lagerbäck segi um þessa spá.
Hvað ætli Lars Lagerbäck segi um þessa spá. Vísir/Anton
3-3 jafntefli í fyrsta leik Evrópumótsins á móti Portúgal væri alls ekki svo slæmt. Spá Unibet fyrir F-riðilinn á EM í Frakklandi hljómar vel til að byrja með en endar hinsvegar ekki eins vel. Önnur athyglisverð spá hjá hinum franska Pirlo skilar okkur hinsvegar lengra í keppninni.

Unibet er veðmálafyrirtæki á netinu sem er vel með á nótunum fyrir Evrópumótið í Frakklandi sem hefst í dag.

Unibet hefur meðal annars tekið saman spá fyrir alla sex leikina í íslenska riðlinum en keppni í honum hefst ekki fyrr á þriðjudaginn kemur.

Það væri fínt að skora þrjú mörk og fá eitt stig í fyrsta leiknum á móti stórliði Portúgal en svo fer að halla undir fæti hjá íslenska liðinu að mati spámanna Unibet.

Við taka leikir á móti Ungverjum og Austurríkismönnum en þar verður mun minna um bæði mörk og stig samkvæmt spánni hjá Unibet-mönnum.

Það er hægt að sjá myndband með spá Unibet hér fyrir neðan.





Spá Unibet er að sjálfsögðu bara ein af mörgum sem streyma nú inn á lokasprettinum fyrir Evrópumótið.

Fyrir þá sem þykir spá Unibet alltof neikvæð fundum við aðra athyglisverða og jákvæðari spá sem væri gaman að sjá rætast á þessu Evrópumóti.

Hinn franski Pirlo, eins og hann kallar sig á Twitter, sér nefnilega íslenska liðið ná í þrjú stig og komast í sextán liða úrslitin.

Þar tekur reyndar við leikur á móti Króatíu sem ætti þá að rifja upp gömul sár frá því í umspilinu um sæti á HM í Brasilíu. Ísland mætir líka Króatíu í undankeppni HM 2018 sem hefst í haust.

Hvernig sá leikur fer má sjá í spánni hjá The French Pirlo hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×