Innlent

Píratar stefna á prófkjör í öllum kjördæmum

Höskuldur Kári Schram skrifar
Helgi Hrafn Jónsson og Birgitta Jónsdóttir eru tveir af þremur þingmönnum Pírata.
Helgi Hrafn Jónsson og Birgitta Jónsdóttir eru tveir af þremur þingmönnum Pírata. Vísir/Vilhelm
Undirbúningur Pírata fyrir komandi Alþingiskosningar er kominn á fullt skrið og er ætlunin að ljúka prófkjörum innan þriggja mánaða.

Aðalfundur Pírata hófst í Rúgbrauðsgerðinni við Borgartún í dag og lýkur á morgun. Fylgi flokksins hefur aukist gríðarlega á undanförnum misserum og mælist hann nú með um 28 prósenta fylgi í könnunum sem er nærri sexföldun frá kosningum. Mest mældist hann með um 42 prósenta fylgi í byrjun þessa árs.

Jóhann Kristjánsson kosningastjóri Pírata segir að undirbúningur fyrir alþingiskosningar í haust gangi vel þrátt fyrir vaxtaverki. Hann segir að flokkurinn stefni á prófkjör í öllum kjördæmum.

„Það er ekki alveg búið að ákvaða hvað verður. Hvert kjördæmi er með sitt lag á því. Ég reikna með því að prófkjör verði notað til að stilla upp lista í öllum kjördæmum,“ segir Jóhann.

Stefnan er að öllum prófkjörum verði lokið innan þriggja mánaða.

„Ég reikna með því að allt verði tilbúið upp úr miðjum ágústmánuði. Auðvitað fer það eftir því hvað stjórnvöld ætla að gera. Hvenær þau ákveða dagsetningu kosninga. Við getum verið fyrr tilbúin ef þess þarf á að halda,“ segir Jóhann. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×