Fótbolti

Jói Berg um orð Eiðs Smára fyrir leik: Þau voru mjög góð og höfðu áhrif á hópinn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen þarf ekki einu sinni að spila til að hafa áhrif.
Eiður Smári Guðjohnsen þarf ekki einu sinni að spila til að hafa áhrif. vísir/vilhelm
Jóhann Berg Guðmundsson, leikmaður íslenska landsliðsins í fótbolta, sagði á blaðamannafundi í dag að það væri frábært að vera með Eið Smára Guðjohnsen í hópnum.

Þessi reynslumesti leikmaður liðsins og sá markahæsti frá upphafi kom ekkert við sögu í leiknum gegn Portúgal en Jóhann sagði hann hokinn af reynslu og að hann hefði séð flesta hluti í fótboltanum.

Sjá einnig:Sjáðu blaðamannafund strákanna okkar í heild sinni | Myndband

Hann hrósaði þeim sem komu ekki við sögu í leiknum og sagði að hópurinn væri samheldinn og þeir sem spiluðu leikina nytu mikils stuðnings hjá hinum.

„Það getur verið erfitt fyrir suma leikmenn að spila ekki en við finnum ekki fyrir neinu svoleiðis. Það er frábært að þeir styðja okkur sem spilum og eru auðvitað klárir ef einhver meiðist,“ sagði Jóhann Berg.

„Það er ekkert vesen með þetta. Það er jákvæðni í hópnum og það hefur verið okkar styrkleiki undanfarin ár. Það hefur aldrei verið neitt vesen í hópnum og allir að róa í sömu átt. Það heldur áfram hérna.“

Eftir leikinn töluðu sumir um að Eiður Smári hefði verið lykilmaður í sigrinum en Theodór Elmar Bjarnason fór lengra og sagði hann þann mikilvægasta þrátt fyrir að Eiður spilaði ekki mínútu.

„Þetta var ákveðinn hlutur sem Eiður sagði á liðsfundi. Þau orð voru mjög góð og höfðu góð áhrif á hópinn,“ sagði Jóhann Berg Guðmundsson.

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir

Jói Berg fann ekki fjölskylduna sína

"Ef þið sjáið sex manns klædda í appelsínugult í Marseille, þá er það fjölskyldan hans Jóa,“ sagði Heimir Hallgrímsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×