Fótbolti

Lars: Berum einhverja virðingu fyrir Ungverjalandi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Lars Lagerbäck.
Lars Lagerbäck. vísir/vilhelm
Lars Lagerbäck, annar landsliðsþjálfara Íslands í fótbolta, segir frammistöðu ungverska liðsins gegn Austurríki ekki hafa komið sér á óvart en Ungverjaland vann að flestra matri gríðarlega óvæntan sigur á Austurríki í fyrstu umferð riðlakeppni EM 2016.

Ísland og Ungverjaland mætast á Stade Vélodrome í Marseille klukkan 16.00 í dag en leikurinn gríðarlega mikilvægur fyrir bæði lið. Sigur kemur Ungverjum pottþétt áfram í 16 liða úrslitin og jafntefli ætti að gera það sama. Ísland þarf helst að vinna.

„Frammistaða Ungverjalands gegn Austurríki kom mér ekki á óvart. Við höfum séð að ungverska liðið er vaxandi og við berum að minnsta kosti einhverja virðingu fyrir því,“ sagði Lars á blaðamannafundi íslenska liðsins í gær en það var eins og Lars nýtti tækifærið til að skjóta aðeins á Austurríki sem Ísland mætir á Stade de France 22. júní.

„Það kom mér á óvart að Ungverjaland lét Austurríki líta ekki nógu vel út. Það er erfitt að segja hvað réði för þar en Ungverjaland er með mjög skipulagt lið. Við eigum von á góðum leik en við þurfum að spila sem lið.“

Ungverjar verða án síns aðal hægri bakvarðar í leiknum í dag vegna meiðsla en hvernig mun það hjálpa íslenska liðinu?

„Það er erfitt að segja,“ svaraði Lars. „Maður vill helst hafa leikmennina sem byrja flesta leiki. Það er erfitt fyrir okkar sóknarmenn að ætla bara að sækja á ákveðinn kant en ef þeir finna fyrir veikleika á einhverjum stað á vellinum þá ráðast þeir á hann,“ sagði Lars Lagerbäck.

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×