Erlent

Leita að flugritum vélarinnar

Birta Björnsdóttir skrifar
 „Fyrir skemmstu fengum við upplýsingar frá yfirvöldum í Egyptalandi að leitarflokkar hefðu fundið líkamsleifar, tvö flugsæti og farangur á leitarsvæðinu."

Þetta sagði varnarmálaráðherra Grikklands á fréttamannafundi fyrr í dag.

Hlutirnir fundust rétt sunnan við svæðið þar sem sambandið við flugvélina rofnaði um 295 kílómetrum undan ströndum Alexandríu-borgar í Egyptalandi.

Letiarflokkar róa nú að því öllum árum að finna flugrita vélarinnar, hina svokölluðu svörtu kassa, svo komast megi að því hvað hafi grandaði vélinni. Leitin að flugritunum gæti þó reynst þrautin þyngri en hafi vélin farið í sjóinn þar sem brakið fannst er þar mikið dýpi.

Ekkert hefur enn fengist staðfest um ástæður þess að vélin brotlenti. Greint var frá því í gær að vélin hafi tekið skarpar beygjur áður en hún hvarf af ratsjá.

Á fréttavef breska ríkisútvarpsins er greint frá því að nauðlenda þurfti þessarri sömu vél árið 2013 vegna ofhitnunar.

Líklegast þykir þó að vélin hafi horfið í hafið af manna völdum en ekki er víst hvort sprengja hafi grandað henni eða hvort henni hafi einfaldlega verið brotlent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×