Erlent

Flóttamannastraumurinn geti leitt til uppreisna í Evrópu

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Dearlove segir að búast megi við milljónum flóttamanna á næstu fimm árum, sem geti breytt pólitísku landslagi Evrópu.
Dearlove segir að búast megi við milljónum flóttamanna á næstu fimm árum, sem geti breytt pólitísku landslagi Evrópu. vísir/epa
Hætta er á uppreisn á meðal almennings í Evrópu sýni leiðtogar í álfunni ekki fram á að þeir geti tekist á við flóttamannastrauminn, sagði Richard Dearlove, fyrrverandi yfirmaður bresku leyniþjónustunnar MI6, á opnum fundi breska ríkisútvarpsins í Lundúnum í dag. Hann segir að búast megi við milljónum flóttamanna á næstu fimm árum, sem geti breytt pólitísku landslagi Evrópu.

Dearlove sagði á fundinum að ekki megi loka alfarið á flóttamenn til álfunnar. Þó þurfi að stemma stigu við flóttamannastrauminn. Engar kraftaverkalausnir séu fyrir hendi en að leiðtogar þurfi að sannfæra borgara um að verið sé að takast á við vandann með raunverulegum og raunhæfum hætti.

Þá varaði Dearlove við því að Tyrkir fái að ferðast án vegabréfsáritana og líkti því við að hella olíu á eldinn.

Fleiri tóku til máls á fundinum. Þeirra á meðal var Filippo Grandi, yfirmaður flóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna, sem sagði vandamálið orðið það stórt að allar þjóðir heims þurfi að bera ábyrgð. Ekki dugi að vísa flóttamönnum til annarra landa.

Grandi sagði að um sextíu milljónir manna væru nú á vergangi og flótta í heiminum í dag vegna stríðsátaka og örbirgðar. Ástandið sé þannig í dag að aðeins örfá ríki taki við stærstum hluta flóttamanna og því sé nauðsynlegt að fleiri ríki opni sín landamæri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×