Erlent

Allar líkur á að Kasich sé hættur í kapphlaupinu við Trump

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Vísir/Getty
Fjölmiðlar vestanhafs halda því fram fullum fetum að John Kasich, ríkisstjóri Ohio, hafi ákveðið að hætta kapphlaupinu um tilnefningu forsetaefnis Repúblikanaflokksins. Kasich hefur sjálfur ekki staðfest orðróminn.

Ted Cruz dró framboð sitt tilbaka í gær og þá stóð Kasich einn eftir á móti Donald Trump í keppninni um hver verði næsta forsetaefni Repúblikanaflokksins. Kasich veitti Trump þó aldrei neina raunverulega samkeppni en Trump hefur sigrað í forkosningum í hverju fylkinu á fætur öðru.

Nú síðast vann Trump yfirburðasigur í Indiana-fylki þegar hann nældi sér í alla 57 fulltrúa fylkisins.

Eftir að Cruz dró framboð sitt tilbaka í gærkvöldi sagði Kasich-teymið að niðurstöður forkosninga í Indiana myndu ekki hafa áhrif á hans slag heldur hafi áætlun þeirra alltaf verið að ná í tilnefninguna á flokksþingi repúblikana í júlí.

Kasich lýkur leik með 153 fulltrúa og það setur hann í fjórða sæti en Marco Rubio var í því þriðja með 171 fulltrúa áður en hann dró sig úr keppni í mars síðastliðnum. Hinn 63 ára Kasich tók við embætti ríkisstjóra Ohio árið 2011.

Hann átti sæti í fulltrúadeild Bandaríkjaþings á árunum 1983 til 2001 og var formaður fjárlaganefndar þingsins frá 1995 til 2001.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×