Enski boltinn

Liverpool búið að bíða lengur eftir Englandsmeistaratitlinum en United

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Margir United-menn hafa fagnað enska titlinum síðan Ian Rush og félagar síðast urðu meistarar fyrir Liverpool 1990.
Margir United-menn hafa fagnað enska titlinum síðan Ian Rush og félagar síðast urðu meistarar fyrir Liverpool 1990. vísir/getty
Í dag er runnin upp dagur sem stuðningsmenn Manchester United hafa beðið eftir í langan tíma.

Liverpool hefur, frá og með deginum í dag, beðið lengur eftir Englandsmeistaratitlinum en Manchester United þegar það gekk í gegnum sína lengstu eyðimerkurgöngu.

Það sem meira er hefur Manchester United rakað inn Englandsmeistaratitlinum á þessu þurrkatímabili Liverpool og tekið fram úr erkifjendum sínum.

Manchester United vann Englandsmeistaratitilinn árið 1967 undir stjórn Sir Matt Busy en fagnaði svo ekki sigri í efstu deild Englands á ný fyrr en undir stjórn Sir Alex Ferguson á stofntímabili ensku úrvalsdeildarinnar 1992/1993. Biðinvar 26 ár.

Liverpool vann síðast Englandsmeistaratitilinn árið 1990 en Liverpool var besta lið Englands á níunda áratug síðustu aldar og vann titilinn sjö sinnum og í heildina ellefu sinnum frá 1973-1990.

Steven Gerrard var hársbreidd frá því að endurheimta titilinn á Anfield 2014.vísir/getty
Þarna var allt í blóma hjá Liverpool sem bætti þremur bikarmeistaratitlum í safnið og varð Evrópumeistari fjórum sinnum á þessum tíma. Manchester United þurfti að sætta sig við þrjá bikarmeistaratitla á níunda áratug síðustu aldar en meira var það ekki.

Þessi 26 ára bið Liverpool eftir Englandsmeistaratitlinum er formlega orðin lengri en hjá Manchester United og halda nú dagarnir áfram að telja þar til bikarinn fer aftur á Anfield.

Liverpool var grátlega nálægt því að verða Englandsmeistari fyrir tveimur árum en rann heldur betur á svellinu - sumir bókstaflega - á lokasprettinum. Frægt tap gegn Chelsea og enn frægara jafntefli gegn Crystal Palace gerðu út um titilvonir Liverpool það árið.

Þegar Liverpool vann síðast Englandsmeistaratitilinn árið 1990 var staðan í landstitlum 18-7 fyrir Liverpool í baráttunni við Manchester United en Sir Alex Ferguson sneri gengi United við eins og allir knattspyrnuáhugamenn vita.

Skotinn vann þrettán enska meistaratitla með Manchester United og er liðið lang sigursælasta lið ensku úrvalsdeildarinnar og það sigursælasta í efstu deild með 20 titla gegn 18 titlum Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×