Innlent

Telur vitjunartíma sinn ekki kominn

Samúel Karl Ólason skrifar
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, telur vitjunartíma sinn ekki kominn. Eftir tuttugu ár í embætti segist hann enn hafa gott samband við Íslendinga. Hann tilkynnti framboð sitt til embættis forseta í sjötta sinn í dag.

Þetta kemur fram í viðtali Ólafs við fréttastofu 365 en hluti viðtalsins var sýndur í Íslandi í dag á Stöð 2 í kvöld. 

„Sú hætta er nú kannski alltaf fyrir hendi. Hvort sem að menn eru búnir að vera þetta lengi eða skemur. Blessunarlega held ég að ég hafi enn gott samband við fólkið í landinu og þær hvatningar og þau erindi sem hafa borist til mína á undanförnu sýnir að fólki finnst það hafa greiðan aðgang að mér,“ segir Ólafur. 

Hann segir forsetann líka þurfa að vera tilbúinn til þess að treysta eigin dómgreind.

„Ég gerði það í Icesave-málinu. Við skulum ekki gleyma því að nánast allir sem að bera svona virðingarstöður í skoðanamótinu í landinu voru á móti þeirri ákvörðun þegar ég tók hana. Þannig að forsetinn þarf líka að vera tilbúinn til að finna í sjálfum sér og vilja fólksins í landinu og sambandi sínu við fólkið í landinu, kjark og traust til þess að taka erfiðar ákvarðanir.“

Ólafur segir að hann hefði ekki breytt sinn ákvörðun um að bjóða sig ekki fram aftur ef hann teldi sig ekki hafa þennan eiginleika enn.

Enn fremur segir hann að atburðir síðustu daga og vikna, afsögn forsætisráðherra, ný ríkisstjórn og fleira, hefðu haft áhrif á fjölda beiðna sem hann fékk frá fólki í landinu. Mörg þeirra hafi haft djúpstæð áhrif á hann.

Ítarlegt viðtal Þorbjarnar Þórðarsonar fréttamanns við Ólaf Ragnar Grímsson má sjá hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×