Innlent

Bjarni mætir ekki á þingfund í dag

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, er fastur í Bandaríkjunum og mætir því ekki á þingfund í dag.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, er fastur í Bandaríkjunum og mætir því ekki á þingfund í dag. Vísir/Pjetur
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, mun ekki mæta á þingfund klukkan 15 í dag eins og boðað hafði verið en hann átti að sitja fyrir svörum í óundirbúnum fyrirspurnartíma.

Bjarni hefur verið í Bandaríkjunum og samkvæmt upplýsingum frá Svanhildi Hólm Valsdóttur, aðstoðarmanni hans, var fjögurra tíma seinkun á innanlandsflugi Bjarna í Bandaríkjunum í gær og missti hann því af tengifluginu hingað til lands.

Eftir því sem Vísir kemst næst kemur Bjarni ekki til landsins fyrr en í fyrramálið en ekki fást upplýsingar um hvar hann er nákvæmlega staddur. Svanhildur segir hins vegar að Bjarni hafi verið með á fundinum í gegnum netið.

Mikið mæðir á forystumönnum ríkisstjórnarinnar þar sem bæði þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, og Bjarni voru til umfjöllunar í Kastljósi í gær en þeir hafa báðir haft tengsl við aflandsfélög í skattaskjólum. Í þættinum kom meðal annars fram að Sigmundur Davíð hafi selt eiginkonu sinni helmingshlut sinn í félaginu Wintris á gamlársdag 2009 á einn dollara, degi áður en ný skattalög um aflandsfélög tóku gildi.

Stjórnarandstaðan hefur boðað vantrauststillögu á forsætisráðherra. Nú fyrir hádegi funda svo allir þingflokkar vegna málsins og í hádeginu mun stjórnskipunar-og eftirlitsnefnd funda til að ræða vanhæfi Sigmundar Davíðs. Klukkan 15 er svo óundirbúinn fyrirspurnartími á Alþingi þar sem forsætisráðherra mun sitja fyrir svörum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×