Innlent

Þúsundir kalla eftir afsögn Sigmundar Davíðs: „Afhjúpaður sem loddari og lygari“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
„Ég vona að hann Sigmundur Davíð skilji alvarleika málsins og sjái sóma sinn í því að segja af sér fyrir þingfund í dag. Mikil er ábyrgð hans ef hann gerir það ekki. Það er gríðarleg ólga í samfélaginu eftir að hann var afhjúpaður í Kastljósi í gær sem loddari og lygari með vænissýki á háu stigi.“

Þetta segir Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, á Facebook-síðu sinni nú í morgunsárið. Tilefnið er flestum kunnugt; ítarleg umfjöllun í Kastljósi í gær um tengsl forsætisráðherra við aflandsfélagið Wintris sem skráð er á Bresku Jómfrúaeyjunum.

Ég vona að hann Sigmundur Davíð skilji alvarleika málsins og sjái sóma sinn í því að segja af sér fyrir þingfund í dag....

Posted by Birgitta Jónsdóttir on Sunday, 3 April 2016
Það er ekki ofsögum sagt að mikil ólga sé í samfélaginu vegna málsins. Um 7.500 manns hafa boðað komu sína á mótmæli á Austurvelli klukkan 17 í dag og þá hafa tæplega 22 þúsund manns ritað nafn sitt við undirskriftasöfnun þar sem forsætisráðherra er sagt upp störfum.

Þá hefur verið sett upp vefsíða þar sem einfaldlega er spurt hvort að Sigmundur Davíð hafi sagt af sér. Sé smellt á síðuna fær maður svar við þessari einföldu spurningu.

 

Þing kemur saman á ný í dag eftir páskahlé klukkan 15 og eiga bæði forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, að sitja fyrir svörum í óundirbúnum fyrirspurnartíma. Þá mun stjórnskipunar-og eftirlitsnefnd Alþingis funda í hádeginu til að ræða aflandsfélög og hæfi Sigmundar Davíðs.

Nú klukkan 8.15 munu síðan formenn og þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar funda en að sögn Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar, er ætlunin að fara yfir daginn og stilla saman strengi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×