Erlent

Obama um skattaskjól: „Allir eiga að greiða sinn skerf“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Barack Obama hefur tjáð sig um Panama-skjölin og þær upplýsingar sem þar koma fram
Barack Obama hefur tjáð sig um Panama-skjölin og þær upplýsingar sem þar koma fram Vísir/Getty
Barack Obama Bandaríkjaforseti kallar eftir umbótum á alþjóðlegu skattaumhverfi í kjölfar þeirra upplýsinga sem komið hafa fram í Panama-skjölunum. Hann segir mikilvægt að koma í veg fyrir að menn komi sér undan því að greiða skatt.

„Það er engin spurning að vandamálið við undanskot á sköttum á alþjóðavettvangi er risavaxið,“ sagði Obama, „Vandamálið er það að yfirleitt er það löglegt en ekki ólöglegt.“

Þessi greining Bandaríkjaforseta kallast á við helstu málsvörn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem sagt hefur af sér embætti forsætisráðherra vegna upplýsinga sem komu fram í Panama-lekanum.

Obama sagði að þær upplýsingar sem komið hafa fram í lekanum væru mikilvægar og að yfirvöld ríkja heimsins ættu að stefna að því að loka þeim leiðum sem nýttar eru til þess að koma fjármunum undan skatti með hjálp aflandsfélaga í skattaskjólum.

„Við ættum að gera það ólöglegt að stunda viðskipti sem eru til þess ætluð að koma sér undan greiðslu skatta,“ sagði Obama. „Meginreglan er sú að allir eiga að greiða sinn sanngjarna skerf.“

Afsögn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar er stærsta fréttin á erlendum miðlum víðsvegar um heim. Víða er því slegið upp að hann sér fyrsti embættismaðurinn sem hrökklast úr starfi í kjölfar Panama-skjalanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×