Innlent

Eggert um aflandsfélagið: "Hefur kostað mig afskaplega leiðinlega og erfiða lífsreynslu“

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Eggert Skúlason
Eggert Skúlason vísir/gva
„Refsingin er aðallega sú að vera tengdur við þennan lista. Ég hef verið sakaður um tvennt núna sem er víst alvarlegast í íslensku samfélagi. Það er annars vegar þetta og svo að vera framsóknarmaður. Ég er saklaus af báðu,“ segir Eggert Skúlason, ritstjóri DV, en nafn hans er að finna í Panama-skjölunum svokölluðu.

Eggert ræddi málið í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni. Hann segir Landsbankann hafa ráðlagt sér að stofna félag erlendis, en að hann hafi talið að það væri staðsett í Lúxemborg. „Það er félag sem svo síðar kom í ljós að var statt á þessari margfrægu eyju,“ segir hann.

Hann segir sérstakan saksóknara hafa rannsakað málið þar sem hann var látinn gera grein fyrir sínum hlutum. Málið hafi á endanum verið látið niður falla.

„Ég er búinn að fara í gegnum hakkavélina. Fór í skattrannsókn og það var mjög erfið upplifun. Ég taldi félagið fram, gerði grein fyrir því, greiddi skatt af þeim tekjum sem ég hafði af því, voru ekki háar upphæðir,“ segir Eggert. Því hafi það ekki komið sér á óvart þegar nafn hans birtist í þessum skjölum.

Eggert segir að um hafi verið að ræða félag sem hélt utan um svokallaða PR starfsemi, eða almannatengsl, og að það hafi ekki haft mikil umsvif. „En hefur kostað mig afskaplega leiðinlega og erfiða lífsreynslu.“

Viðtalið við Eggert í heild má heyra í spilaranum hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×