Innlent

Þuríði sundafylli hampað í sjávarbyggðum Lofoten

Kristján Már Unnarsson skrifar
Minnisvarði er um landnámskonuna Þuríði sundafylli við ráðhús stærsta sveitarfélagsins á Lofoten. Þar segja menn að þessi einstæða móðir hafi verið frumkvöðull í fiskveiðum og flutt þekkinguna með sér til Íslands. 

Á Lofoten eru fiskveiðar ein helsta atvinnugreinin og athyglisvert fyrir Íslendinga að sjá hverjum hér er hampað. Fyrir framan ráðhúsið í bænum Leknes stendur minningarsteinn um Þuríði sundafylli sem Sögufélag Vestur-Vogeyjar lét gera fyrir þremur árum.

„Við eigum að minnast hennar sem sigldi héðan fyrir 1100 árum. Það var mikið afrek fyrir konu að búa skip sitt, sigla til Íslands og nema þar land og láta að sér kveða,“ segir Kolbjørn Bugge, formaður Sögufélagsins á Vestvågøy, en Landnámabók segir Þuríði hafa komið frá Hálogalandi. 

„Hún var því kölluð sundafyllir, að hún seiddi til þess í hallæri á Hálogalandi, að hvert sund var fullt af fiskum,“ segir um Þuríði.

Alf Ragnar Nielsen, prófessor í Bodø við háskólann í Nordland.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Sagnfræðiprófessorinn Alf Ragnar Nielsen segir að þeir landnámsmenn sem mesta reynsluna höfðu af nýtingu sjávarfangs hafi komið úr Norður-Noregi.

„Sú þekking kom með þegar flutt var til Íslands. Þeir voru því brautryðjendur í nýtingu sjávarauðlinda,“ segir Alf Ragnar Nielsen. Frásögn Landnámu af gjaldtöku Þuríðar sundafyllis af fiskveiðum í Ísafjarðardjúpi bendi til að hún hafi verið í forystuhlutverki.

„Hún setti og Kvíarmið á Ísafjarðardjúpi og tók til á kollótta af hverjum bónda í Ísafirði,“ segir Landnámabók.



Þuríður tók fiskitoll af hverjum bónda í Ísafjarðardjúpi,Teikning/Jakob Jóhannsson.
„Það bendir til þess að hún hafi skipulagt fiskveiðar með einhverjum hætti og haft stöðu höfðingja, þrátt fyrir að vera kona,“ segir Alf Ragnar. 

Í Bolungarvík er félag um Þuríði. 

„Mér finnst eiginlega að allar konur, sérstaklega bolvískar, ættu að hafa áhuga á þessari sögu,“ segir Soffía Vagnsdóttir, annar stofnanda Þuríðar sundafyllis ehf.

„Þuríður sundafyllir, landnámskona Bolungarvíkur, hún er fyrirmynd allra kvenna.“

Fjallað er um Þuríði í þættinum Landnemarnir á Stöð 2 í kvöld, mánudagskvöld.

Soffía Vagnsdóttir, annar stofnanda félagsins Þuríður sundafyllir ehf.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×