Fótbolti

Johan Cruyff látinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Johan Cruyff, einn besti knattspyrnumaður Hollands frá upphafi, er látinn eftir baráttu við krabbamein. Hann var 68 ára.

Þetta er staðfest á heimasíðu hans.

Fram kemur í tilkynningunni að Cruyff hafi látist í Barcelona og að hann hafi verið umkringdur fjölskyldumeðlimum sínum.

Cruyff átti magnaðan knattspyrnuferil og hlaut þrívegis Gullboltann fyrir að vera valinn knattpsyrnumaður ársins - 1971, 1973 og 1974.

Hann fór með hollenska landsliðið í úrslitaleikinn á HM 1974 og var svo valinn besti leikmaður keppninnar.

Hann hóf leikmannaferil sinn hjá Ajax þar sem hann varð átta sinnum Hollandsmeistari og þrívegis Evrópumeistari. Cruyff var svo seldur til Barcelona fyrir metfé og varð hann spænskur meistari á sínu fyrsta ári þar.

Hann þjálfaði bæði félög með góðum árangri eftir að ferlinum lauk og hafði sterk tengsl við Ajax og Barcelona alla sína tíð. Hann var stjóri Barcelona þegar liðið vann sinn fyrsta Evróputitil árið 1992.

Cruyff er almennt talinn einn besti knattspyrnumaður sögunnar og var valinn knattspyrnumaður aldarinnar í Evrópu árið 1999.

Cruyff greindist með lungnakrabbamein í október á síðasta ári.


Tengdar fréttir

Cruyff með krabbamein

Besti knattspyrnumaður Hollands frá upphafi glímir við krabbamein.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×